Samskipti eru mikilvægasti þátturinn í starfi leikskólans
Það að starfsfólk hafi góð samskipti sín á milli að starfsmenn beri virðingu fyrir hver öðrum og vinni saman á jafnréttisgrundvelli með börnunum er mjög stór þáttur í því að börnunum líði vel íl leikskólanum. Góð samskipti leiða af sér vellíðan bæði fyrir fullorðna og börn, Það er því stór þáttur að fullorðna fólkið sem vinnur með börnunum sé vel í stakk búið til að takast á við starfið, hlusta hvert á annað og tala saman um það sem á að fara að gera með börnunum og gefa hver öðrum klapp á bakið. Ósætti eða stirð samskipti fullorðinna á milli leiða af sér vanlíðan allra sem eru í nánu samstarfi við þá aðila. Slík samskipti rífa niður starfið með börnunum gera þau óörugg og vansæl..
Samskipti við börnin eru ekki síður mikilvæg. Hvernig fullorðnir talar við börnin, hvernig þeir hlusta á þau, hvernig þeir hjálpa börnunum að vinna úr hugmyndum þeirra, hvernig verkefni eru lögð fyrir börnin svo áhugahvötin eflist, hvernig fullorðnir hrósa börnunum, hvernig þeir taka á óæskilegri hegðun barnanna á jákvæðan hátt, allt þetta og miklu meira skiptir máli í starfi í leikskóla. Starfsmenn leikskólans eru barnanna vegna í leikskólanum og þeim ber skilda til að bera virðingu fyrir sérhverju barni þörfum þess og löngunum.
Hlýja og umönnum er forsenda þess, að barnið nái að þroskast eðlilega. Til þess að vel megi takast þurfa náin tilfinningatengsl að skapast milli barns og fullorðins og samskiptin við börnin að vera þannig að hver og einn hafi rétt til að láta sína skoðun í ljós. Barnið setur allt sitt traust á hinn fullorðna.
En hvað er umönnun? Mögrum dettur eflaust í hug að það sé að skipta á börnunum og snýta þeim, gefa þeim að borða, þ.e. að sinna líkamlegum frumþörfum þeirra. Hugtakið umönnun, nær yfir hegðun gagnvart öðrum manneskjum annars vegar og hegðun í samskiptum við annað fólk hins vegar. Að bera umhyggju fyrir eða vera umhugað um aðra manneskju, felur í sér tilfinningaleg samskipti. Með umönnum er átt við að annast börnin líkamlega og andlega, af hlýju, áhuga og ábyrgð, þannig að börnin séu ánægð og að við sjáum það í augum þeirra að þau leiftri af lífsgleði. Því nær maður ekki ef unnið er með vélrænum vinnubrögðum, eins og t.d. að taka barnið og setja það í vagninn, án orða, án þess að brosa til þess,án þess að sýna að þér þyki vænt um það. Erum við með athyglina við barnið ef við erum að skipta á barninu en jafnframt að spjalla við einhvern annan starfsmann um eitthvað allt annað.
Börn á aldrinum eins til þriggja ára eru mjög upptekin hvert af öðru og vilja vera að „aðstoða“ hvert annað að klæða sig úr og í. Starfsfólk hefur mjög oft upplifað góðar stundir með þeim í fataklefanum, þar sem þau koma til vinar og segja „Á ég að aðstoða þig?“ „Á ég að hjálpa þér úr gallanum ?“ Ég skal reima fyrir þig.“
Í samverustundum klæða þau sig oft úr sokkum og skóm og þá er yfirleitt eitthvert barn komið til að hjálpa þeim í aftur. Þessar stundir eru heilagar og fullorðnir eiga ekki að grípa þar fram í til að flýta fyrir, eða að segja með pirring: „Ertu búin að klæða þig úr einu sinni enn, það er nú meira vesenið á þér alltaf“ . Leyfum börnunum að njóta þessara samskipta við jafnaldra og upplifa samkennd og vináttu.
Það er einnig mikilvægt hvernig hinn fullorðni tekur þátt í samtölum barnanna. Hann kemur inn í samtalið með því að samþykkja og gefa til kynna að honum finnist merkilegt það sem börnin eru að segja og hvetur þau til að tjá sig áfram. Börnin finna að hinum fullorðna finnst merkilegt það sem eitt barn segir og við það fá þau hvatning til að taka þátt í samræðunum og koma með sínar athugasemdir. Hinir fullorðnu hvetja börnin áfram og samskiptin verða viðurkennandi og uppörvandi.
Börn á leikskólaaldri hafa ríka þörf fyrir að tjá sig með myndmáli. Þau yngstu sem ekki eru farin að tala fá tækifæri til að tjá tilfinningar sínar og upplifanir í mynd. Færni þeirra í skapandi starfi eflir sjálfstraust þeirra og styrkir sjálfsmyndina. Yngstu börnin mála/teikna oft til að prufa litina, en ekki þannig að þau séu að teikna eitthvað sérstakt. Seinna fara þau að gefa teikningunum heiti og útskýra hvað þau eru að gera.
Í öllum samskiptum við yngstu börnin er mikilvægt að hafa í huga þessa veigamiklu setningu:
“ ÉG GET ÞAÐ SEM ÉG FÆ TÆKIFÆRI TIL AÐ GERA“
Hugtakið viðurkenning beinist að því að vilja í einlægni stuðla að þróun viðkomandi. Viðurkenning er ein mikilvægasta forsenda þróunar sjálfsins. Viðurkenning er grundvölluð á ákveðnu jafnræði. Tengslin eða samskiptin geta ekki orðið á jafnræðisgrundvelli ef annar aðilinn í samspilinu lítur á sig sem minni máttar eða æðri hinum og þá verður engin viðurkenning í samspilinu. Viðurkenning hins fullorðna felur í sér að viðhorf hans til barnanna sé að þau hafi rétt til sjálfstæðra hugsana. Börn hafa rétt til að hafa eigin reynslu og upplifanir. Hinn fullorðni þarf ekki að samþykkja þær sem réttar en barnið fær leyfi til að hafa sýnar eigin skoðanir og tjá sig um þær án þess að vera niðurlægður. Viðurkenning felur í sér að hinn fullorðni leyfir barninu að vera „sérfræðingur“ í eigin upplifunum og reynslu og smám saman að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum, eigin lífi. Hlustun er því hér ákaflega mikilvæg. Það þýðir að geta hlustað og heyra það sem raunverulega er sagt. Starfsmenn þurfa að heyra það sem sagt er en ekki er síður mikilvægt að vera sér meðvitaður um það sem ekki er sagt. Það sem ekki er sagt með orðum birtist í margvíslegri líkamstjáningu barnsins og þar fær starfsmaðurinn mikla vitneskju um tilfinningar, ætlanir og viðhorf barnsins.
Við viljum leggja mikla áherslu á að sérhvert barn fái sértæka athygli og að einstaklingurinn og hópurinn sem slíkur spili vel saman þannig að þroskamöguleikar allra verði sem mestir. Við viljum leggja áherslu á að leikur og starf fari saman og það að leika sér sé gleðigjafi.
LEIKURINN Á VÍSDÓM VEIT.