Leikskólanám á að efla alhliða þroska barna, þ.e.a.s. efla mikilvægustu þroskaþætti sem samtvinnast hjá barninu. Þessir meginþættir og samspil þeirra varða líkamsvöxt barna og hreyfifærni, tilfinningalíf, vitsmuni, félagsvitund og félagshæfni, fegurðarskyn og sköpunarhæfni, siðgæði og lífsviðhorf. Í leikskólastarfi er barnið í brennidepli og starfshættir eiga að taka mið af þroska og þörfum hvers barns. Leikskólanám er samþætt nám þar sem námssvið og námsþættir fléttast inn í daglegt líf og leik barnsins.
Leikskólakennarar þekkja leik barna, þeir virða leikinn, hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins. Í bernsku er það að leika sér það sama og að læra og afla sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur barnsins er talinn „leikur leikjanna“. Í frjálsum leik skapar barnið leikinn úr eigin hugarheimi, það tekur ákvarðanir á eigin forsendum og lærir að leita lausna.
Í leiknum er barnið einbeitt og það er upptekið af augnablikinu.
Fjölþætt upplifun elur af sér þekkingu, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni.
Sköpunarþörf, virkni og hugmyndaflug barna birtist í leikjum þeirra. Í leik fá börnin hreyfiþörf sinni fullnægt og þau þjálfa hreyfingar sínar og líkamsstjórn. Í þykjustu- og hlutverkaleikjum og öðrum samleikjum lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars á jafnréttisgrundvelli. Í leik öðlast börnin samkennd og vináttu. Í skipulögðum leikjum og regluleikjum læra þau einfaldar samskiptareglur og að virða rétt annarra, í slíkum leikjum vaknar og þróast lýðræðisvitund þeirra. Lögð er áhersla á vináttu, samleik og jákvæð samskipti.