Nú er vetrarstarfið okkar með börnum skólans farið af stað og aðlögun nýju barnanna okkar alveg að smella. Það eru bara nokkur börn sem eiga eftir að finna öryggið sitt svo þau geti farið að njóta vel.
Vísdómsstundir elstu barnanna eru byrjaðar en þau eru að undirbúa sig fyrir áframhaldandi skólagöngu. Þau eru að ræða saman um ýmiss málefni, teikna upplifanir sínar og segja frá myndunum sínum. Þau eru líka að æfa sig í að leika tvö og tvö saman og ekki endilega með besta vininum því við vitum það að þegar út í grunnskólann kemur er gott veganesti að vera félagslega sterkur og geta leikið með nánast hverjum sem er. Hópastar barna fædd 2018 er líka byrjað og eru börnin að velja sér þema til að vinna með í vetur.

Málþroskinn er okkur fagaðilum í Vinaminni mjög hugleikinn og höfum við fengið til okkar talmeinafræðing til að vera með fræðslu fyrir foreldra um máltöku barna og hvaða leiðir er hægt að fara til að auðga málþroska þeirra á leiksólaaldri. Talmeinafræðingurinn hefur einnig komið með erindi á skipulagsdegi fyrir starfsfólk skólans. Það er okkur mikið kappsmál að börnin nái aldurssvarandi málþroska þannig njóta þau betur bernsku sinnar í félagslegum aðstæðum í leik og í starfi.

Galdrakoffortin eru að fara í gagnið en þau eru með fullt af bókum í. Það er eitt Galdrakoffort á hverri deild með bókum fyrir þann aldur sem er á viðkomandi deild. Síðan geta foreldrar og barn valið eina bók úr Galdrakofforti deildarinnar í lok dags til að fara með heim og lesa saman, bókinni er svo skilað næsta dag þegar barnið kemur í skólann. Galdrakoffortin eru skreytt fallega svo þau séu forvitnileg og eftirsóknaverð sem gerir bókalesturinn ennþá skemmtilegri.

Það er margt á döfinni hjá okkur í Vinaminni á haustdögunum og við hlökkum til að vinna að vetrarstarfinu með börnunum ykkar.

þar til næst

Sólveig Framkvæmdarstjóri