Mikið er nú gott að frosthörkurnar eru liðnar og börnin ykkar geta farið að njóta útiverunnar.
Það munar svo miklu þegar þau fá útrás fyrir hreyfiþörfinni sinni svo ég tali nú ekki um ferska íslenska loftið okkar í lungun, þá líður þeim betur og eru ánægðari.
Ég var svo bjartsýn að ég hélt að allar pestir og veikindi yrðu úr sögunni um ármótin 2022-2023 en sá draumur hefur því miður ekki ræst. Með hækkandi sól og smá vítamíni í kroppa vonum við að heilsufarið fari að lagast.
Vetrarstarfið með börnunum ykkar er samt í fullum gangi og við slökum ekkert á þar. Börnin fá frábært starf á öllum deildum skólans og vonandi skilar það sér í auknum þroska og getu þeirra.
Leikskólinn Vinaminni er skóli sem leggur mjög mikla áherslu á að efla málþroska barnanna og mér finnst mjög gaman að sjá hvað þið og börnin ykkar eruð dugleg að nýta ykkur „Galdrakoffortin“ okkar og taka bók úr þeim með heim til að lesa fyrir börnin ykkar á kvöldin. Einn barnahópurinn var þegar búinn að fylla steinakrukkuna sína ( Börnin setja stein eða perlu í krukku í hvert sinn sem þau skila bók í koffortið ) af steinvölum og þau völdu að hafa dótadag í verðlaun. Það lukkaðist mjög vel og börnin voru glöð að fá að koma með dót í skólann.
Galdrakoffortin verða á öllum deildum skólans og verða bækurnar í hverju kofforti aldursmiðaðar. Koffortin eru ekki tilbúin á öllum deildunum ennþá.
Þar til næst
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri