Það er með ólíkindum hvað tíminn flýgur hratt. Sumardagurinn fyrsti er á morgun og veturinn kveður.
Við höfum varla fengið snjó í vetur sem börnin hafa getað leikið í og með en við fögnum sumrinu að sjálfsögðu.
Farfuglarnir eru farnir að láta sjá sig og ég sá túnfífil brosa móti sól í vikunni svo það er allt í náttúrunni að lifna við.
Börnin eru dugleg að vera úti að leika og þau njóta þess svo sannarlega. Liltu börnin á Álfasteini og Dvergasteini eru mjög glöð að fara út í garð að leika og taka vel til matar síns þegar þau koma inn.
Börnin á Völusteini og Töfrasteini njóta þess að fara í útikennslu en þá er farið út fyrir garðinn og út í náttúruna þar sem þau fá að upplifa náttúruna hvert á sinn hátt. Þá taka þau oft með sér stækkunargler svo þau geta fylgst með breytingunum sem verða í náttúrunni dag frá degi.
Vísdómsstundirnar og hópastarfið er í fullum gangi en börnin eru að vinna að lokaverkefnunum sínum. Lokaverkefnin eru börnunum mikilvæg og mikill metnaður lagður í verkefnin hjá börnunum. Þegar vetrarstarfinu lýkur í lok maí, getum við vonandi haft sýningu á verkum barnanna þar sem þið foreldrar getið komið í skólann og notið verkanna þeirra en það kemur í ljós síðar.
Við starfsfólk leikskólans óskum ykkur öllum, börnum og foreldrum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn.
Við hlökkum til sumarstarfsins með börnunum ykkar og vonum að við getum flutt starfið út í sólina og góða veðrið sem oftast.
Þar til næst
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri