Kæru foreldrar!
Börnin ykkar eru náttúrlega svo frábær!
Þrátt fyrir að skipulagið sé breytt í leikskólanum og við tökum á móti börnunum ykkar við útidyr þá eru þau svo ótrúlega dugleg. Það er ekkert sjálfgefið að þau komi barna inn og bjóði góðan daginn eins og þetta hafi bara alltaf verið svona.
Börnin ykkar eru líka mjög dugleg að vera í litlum hópum inni á þeim svæðum sem þeim er uppálagt, ekkert farið milli leikstofa, bara leikið í sömu stofunni og svo auðvitað er farið út að leika.
Mér sýnist að okkur stjórnendum skólans hafi tekist vel að skipuleggja skólastarfið.
Ég var mest óróleg yfir móttöku barnanna ykkar að þið foreldrar þyrftuð að standa í röðum úti og bíða eftir því að við gætum tekið á móti barninu ykkar, en aldeilis er það ekki þannig, hingað til hefur móttakan gengið mjög vel.
Elstu börnin eru náttúrulega svo dugleg þau vita hvað þau eiga að byrja á að gera þegar þau koma í skólann, þ.e.a.s. klæða sig úr útifötum og setja þau í poka (merkta hverju barni), setja fatapokann og vatnsbrúsann sinn á ákveðinn stað inni á deild og þvo hendur vel með sápu og vatni. Meira að segja held ég að þeim finnist þetta bara svolítið gaman að bera þessa ábyrgð á sjálfum sér og sínu og þá er leikurinn unninn.
Við þökkum fyrir hvern dag sem leikskólinn getur verið opinn og við getum tekið á móti börnunum ykkar í skólann. Þið foreldrar eruð líka svo frábærir þið takið enga sénsa og hafið börnin heima ef þau eru á einhvern hátt slöpp eða ólík sjálfum sér. einnig takið þið enga áhættu ef þið eruð hrædd um að einhver sem er nálægt ykkur sem er með smit hafi smitað til ykkar. Þannig getum við haldið leikskólanum opnum lengur og lífið fyrir litlu börnin ykkar verið á sem venjulegastan og eðlilegastan hátt.
Snertifletir og hluti af leikföngum skólans eru sótthreinsaðir daglega og er hver tími nýttur sem gefst til að halda öllu þessu í skefjun.
Þar til næst
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjói