Kæru foreldrar
Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir frábæra þátttöku á jólaballinu í morgun föstudaginn 15. desember. Það var að mínu viti mjög notalegt og skemmtilegt enda skemmtu börnin sér vel.
Það hefur reynst mjög vel að hafa jólaballið á þessum tíma dags því þá þurfa börnin ekki að bíða spennt eftir skemmtuninni heldur koma þau beint á ballið og eru svo dugleg að leika það sem eftir er dags.
Í dag hefur barnagleði og hlátur hljómað hér um leiksvæði barnanna. Það voru nokkur börn að leika í „búinu“ á Töfrasteini í dag, þau voru í svo frábærum leik þó svo að þau töluðu á óvenjulega háum nótum.
ég heyrði eitt barnanna segja “ já og svo kom Gríla hún var mjög ljót“ og auðvitað lifðu allir sig inn í þessi ósköp að Gríla væri komin, uppi varð fótur og fit með tilheyrandi ópum og sköllum í barnahópnum.
Það er svo gaman að fylgjast með börnunum og heyra hvernig leikir þeirra fá allskyns myndir og ferli eftir því hvað er að gerast á hverjum tíma í lífi þeirra.
En nú nálgast jólin óðfluga, næsta vika verður afskaplega róleg hjá okkur hér í leikskólanum. Þeir sem eru ekki búnir að pakka inn jólagjöfinni sinni til pabba og mömmu gera það og svo verður sungið og lesið, leikið og leikið. Við reynum eftir bestu getu að láta fjaðrafok undirbúnings jólanna ekki hafa áhrif á okkur heldur sigla inn í hátíðina með ró í hjarta og bros á vör.
Enn og aftur kæru foreldrar bestu þakkir fyrir að gera jólaballið svona skemmtilegt og vel heppnað
Kveðja
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri