Kæru foreldrar
Ég vil byrja á því að óska ykkur fjölskyldum gleðilegs sumars með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum vetri.
Jæja þá er skipulagsdagurinn okkar að líta dagsins ljós, vonandi hentar vel fyrir ykkur að lengja fríið í kringum sumardaginn fyrsta og njóta samverunnar í svona þokkalegu veðri en allajafna þá skiptir veðrið kannski ekki svo miklu máli á Íslandi á þessum tíma árs.
Mig langar að fræða ykkur aðeins um hvað við ætlum að gera á skipulagsdeginum þegar börnin ykkar eru ekki á staðnum.
Það verður mikil fræðsla fyrir okkur starfsfólkið þennan dag sem skilar sér pottþétt til barnanna ykkar á jákvæðan og uppbyggjandi hátt.
Við mætum kl: 9:00 og byrjum á því að fara yfir nýendurgerða skólanámskrá leikskólans, förum yfir hugmyndafræðina að baki starfsins, markmið, leiðir og áherslurnar í starfinu með börnunum ykkar svo þau fái sem mest út úr leikskólagöngunni sinni. Við gerum ráð fyrir að vera búin að fara þokkalega yfir námskrána um hádegisbilið.
Eftir hádegismatinn verður tími til umræðna um dagsins önn og nauðsynjar.
Eftir hádegið kemur Hulda Snæberg sem er leikskólakennari og fjölskyldumeðferðarfræðingur en hún leiðbeinir okkur um „tuðfrítt uppeldi“.
Þegar fyrirlestrinum er lokið um kl. 15:30 verðum við örugglega orðin aum í sitjandanum og allir kollar yfirfullir af visku svo við kíkjum inn á deildar og athugum hvort eitthvað þarf úrbóta, tiltektar eða annað. Við reiknum með að slíta degi milli kl: 16:00 og 16:30
Þegar dagur verður að kveldi kominn ætlum við starfsfólkið að fara saman út að borða, hlæja saman og efla þannig vinaþel í starfsmannahópnum sem er mikilvægasta aflið í leikskólastarfinu.
Eigið góða langa helgi kæru foreldrar og börn.
Sumarkveðja
Sólveig Einarsdóttir
leikskólastjóri